Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 432/2011 - Úrskurður

Fimmtudagur 26. apríl 2012

 

 

 

432/2011

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 1. desember 2011, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu mæðralauna frá 1. desember 2005 vegna ákvæða í fyrningarlögum.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að upphaflega kærði kærandi til úrskurðarnefndar almannatrygginga stöðvun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu mæðralauna frá 1. desember 2005. Í máli úrskurðarnefndar nr. 82/2011 var sú ákvörðun stofnunarinnar felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til fyllri meðferðar. Nú liggur fyrir að stofnunin hefur afgreitt kæranda með hliðsjón af fyrrgreindum úrskurði. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, tilkynnti stofnunin kæranda um að ekki væri heimilt að greiða mæðralaun lengra en fjögur ár aftur í tímann frá þeim tíma sem kærandi gerði athugasemdir við að hún væri ekki að móttaka greiðslu mæðralauna, eða frá 1. janúar 2007, með vísan til almennra fyrningarlaga. Kærandi fer fram á greiðslu mæðralauna frá 1. desember 2005.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„2. Upplýsingar um kæruefni:

Kæra vegna meðfylgjandi bréfs frá TR vegna úrskurðar úrskurðarnefndar um ógreidd mæðralaun. Í bréfi TR er tekið fram að laun fyrnist á fjórum árum og því þurfi TR ekki að mér mæðralaun fyrir árið 2006. Þessari skýringu TR er ég ekki sátt við og legg því fram kæru þessa.

 

3. Rökstuðningur fyrir kæru:

Í fyrsta lagi er því haldið fram að mæðralaun séu laun í almennum skilningi og að launakröfur fyrnist ekki á fjórum árum heldur 10 árum samkvæmt almennum reglum fyrningalaga.

 

Í öðru lagi gat ég ekki gætt réttar míns fyrr en TR gerði mér viðvart um að hætt hefði verið að greiða mér mæðralaun, en það gerðist er ég fékk skattkort mitt sent í kringum áramótin 2010/2011. Þegar ég fékk skattkortið endursent leitaði ég til TR og fékk þá upplýsingar um að greiðslum hafi verið hætt í desember 2005. Þá fyrst átti ég þess tök að gæta réttar míns sem ég gerði. Það var því fyrst þarna sem fyrningarfrestur gat byrjað að líða.

 

Í þriðja lagi tel ég skilning TR óeðlilegan enda ef hann er réttur leiðir vanræksla TR á að endursenda mér skattkortið til þess að stofnunin vinni sér rétt vegna fyrningar. Rétt er að taka fram að þar sem ég stóð í þeirri trú að TR væri að nýta skattkort mitt átti ég þess ekki kost að nýta það á vinnustað mínum og því hef ég orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa.

 

Að síðustu tel ég að úrskurðarnefndinni sé heimilt að fara út fyrir kröfur mínar og byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem ég hef ekki reifað hér enda fer hún með rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 2. desember 2011. Í greinargerðinni, dags. 19. janúar 2012, segir:

 

„Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma mæðralauna.

 

Málavextir eru þeir að með bréfi dags. 25. nóvember 2011 samþykkti Tryggingastofnun greiðslu mæðralauna til kæranda með X börnum hennar frá og með 1. janúar 2007, eða fjögur ár aftur í tímann með vísan til almennra fyrningarreglna. Áður hafði Tryggingastofnun samþykkt að greiða kæranda mæðralaun með X börnum hennar frá og með 1. janúar 2009, eða tvö ár aftur í tímann frá því að beiðni barst um leiðréttingu á mæðralaunum.  Sú ákvörðun var felld úr gildi með úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 82/2011 og Tryggingastofnun úrskurðuð til að taka mál kæranda til fyllri meðferðar, sem hún og gerði sbr. bréf dags. 25. nóvember 2011.

 

Samkvæmt 2. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi.  Í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2002, um mæðra- og feðralaun, segir að skilyrði sé að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.

 

Í 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun og þá segir í 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar að bætur skuli aldrei ákvarða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn berst.  Með vísan til 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda þessi ákvæði almannatryggingalaga einnig um greiðslu mæðralauna frá Tryggingastofnun samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

 

Samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár (3. gr.) og fyrningarfrestur kröfu reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda (2. gr.).

 

Kærandi óskaði eftir leiðréttingu mæðralauna með tölvupósti dags. 12. janúar 2011.  Í samræmi við úrskurð Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 82/2011 tók Tryggingastofnun mál kæranda um upphafstíma mæðralauna til fyllri meðferðar og samþykkti greiðslu mæðralauna fjögur ár aftur í tímann frá því að beiðni kæranda barst, eða frá 1. janúar 2007, og vísaði til þess að samkvæmt almennum fyrningarreglum væri ekki heimilt að fara lengra aftur í tímann.

 

Kærandi heldur því fram í kæru sinni að mæðralaun séu laun í almennum skilningi og að launakröfur fyrnist ekki á fjórum árum heldur 10 árum samkvæmt almennum reglum fyrningarlaga.  Þá segist kærandi ekki hafa getað gætt réttar síns fyrr en Tryggingastofnun gerði kæranda viðvart um að hætt hefði verið að greiða honum mæðralaun en það hefði verið gert þegar kærandi fékk skattkort sitt sent í kringum áramótin 2010/2011.  Þá fyrst hafi kærandi átt þess tök að gæta réttar síns sem hann gerði og því sé það fyrst þarna sem fyrningarfrestur gat byrjað að líða.

 

Mæðralaun teljast til bóta almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð og eru því ekki laun. Samkvæmt fyrningarlögum fyrnast kröfur á fjórum árum og því fyrnist krafa vegna ógreiddra mæðralauna á fjórum árum.  Þá fyrnast almennar launakröfur einnig á fjórum árum samkvæmt fyrningarlögum. Kærandi óskaði ekki eftir leiðréttingu á greiðslu mæðralauna til sín fyrr en rúmum fimm árum eftir að þær greiðslur stöðvuðust til hans og verður hann að bera hallann af því.

 

Í fyrningarlögum segir að fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda.  Í tilviki kæranda er það 1. desember 2005 þegar mæðralaun með X börnum stöðvuðust.  Kærandi segist ekki hafa getað gætt réttar síns fyrr en um áramótin 2010/2011 þar sem hann hefði ekki vitað að mæðralaunin hefðu stöðvast fyrr en þá.  Í 52. gr. almannatryggingalaga segir að bótaþegum sé skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á aðstæðum sínum sem geta haft áhrif á greiðslur. Í því felst einnig að einstaklingum beri að fylgjast með þeim greiðslum sem þeir þiggja frá Tryggingastofnun.  Kæranda hefði átt að vera ljóst strax í upphafi, með því að skoða reikning sinn, að greiðslur hefðu stöðvast í desember 2005.  Þá birtast allar greiðslur frá stofnuninni á skattframtali einstaklinga og frá ágúst 2008 hafa allir greiðsluseðlar einstaklinga birst inni á Trygg, þjónustuvef Tryggingastofnunar.  Kæranda hefði því átt að vera í lófa lagt að gæta réttar síns fyrr en hann gerði.

 

Með vísan til ofangreindra lagaákvæða og klárlegs tómlætis kæranda telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni um greiðslu mæðralauna fjögur ár aftur í tímann.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. X, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda mæðralaun frá 1. janúar 2007. Kærandi fer fram á greiðslur frá 1. desember 2005.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að mæðralaun séu laun í almennum skilningi og að launakröfur fyrnist ekki á fjórum árum heldur tíu samkvæmt almennum reglum fyrningarlaga. Í öðru lagi hafi hún ekki getað leitað réttar síns fyrr en Tryggingastofnun hafi gert sér viðvart um að greiðslur mæðralauna hefðu stöðvast sem hafi ekki verið fyrr en hún hafi fengið sent skattkort í kringum áramótin 2010-2011. Í þriðja lagi telur kærandi skilningi stofnunarinnar á því hvenær fyrningarfrestur hafi byrjað að líða óeðlilegan. Sé hann réttur geti vanræksla stofnunarinnar á að endursenda skattkort leitt til þess að stofnunin vinni sér inn rétt vegna fyrningar. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að stofnunin væri að nýta skattkortið og því hafi hún ekki átt þann kost að nýta það á vinnustað sínum.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 sé almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár og að fyrningarfrestur reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda.  Þá er greint frá því að mæðralaun teljist til bóta almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð og séu því ekki laun. Samkvæmt fyrningarlögum fyrnist krafa vegna ógreiddra mæðralauna á fjórum árum. Kærandi hafi ekki óskað eftir leiðréttingu mæðralauna fyrr en rúmum fimm árum eftir að þær greiðslur hafi stöðvast og verði að bera halla af því.

 

Í máli þessu er ekki ágreiningur um hvort skilyrði mæðralauna hafi verið uppfyllt frá niðurfellingu Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu þeirra heldur lýtur hann að því hvort krafa kæranda sé fyrnd vegna ákvæða í fyrningalögum. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til ákvæða gildandi fyrningalaga á þeim tíma sem til kröfunnar stofnaðist. Í gildi voru lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga fellur skuld eða önnur krafa sem ekki hefur verið viðurkennd eða lögsótt innan þeirra tímamarka sem ákveðin eru í lögunum úr gildi fyrir fyrningu. 

 

Í málinu liggur fyrir að Tryggingastofnun felldi niður greiðslu mæðralauna til kæranda frá 1. desember 2005. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur með úrskurði sínum í máli nr. 82/2011 frá 2. nóvember 2011 komist að þeirri niðurstöðu að sú niðurfelling hafi verið ólögmæt. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu greiddi Tryggingastofnun ríkisins kæranda mæðralaun fjögur ár aftur í tímann talið frá þeim mánuði sem kærandi gerði athugasemdir við að hún væri ekki að móttaka greiðslu mæðralauna eða frá janúar 2011. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins var byggð á ákvæðum fyrningalaga nr. 14/1905.

 

Við úrlausn þessa máls ber að líta til þess að krafa kæranda er endurgjaldskrafa sem lýtur reglum kröfuréttar. Í kæru telur kærandi að mæðralaun séu laun í almennum skilningi. Úrskurðarnefnd almannatrygginga fellst ekki á það með kæranda enda ekki um endurgjald fyrir vinnuframlag að ræða. Tryggingastofnun ríkisins felldi niður greiðslu mæðralauna til kæranda frá 1. desember 2005. Í janúar 2011 varð kærandi þess fyrst vör og gerði athugasemdir við að hún væri ekki að móttaka greiðslurnar. Í millitíðinni hafði kærandi ekki tekið eftir því að greiðslurnar hafi verið felldar niður. Í máli þessu er um að ræða kröfu kæranda um greiðslu mæðralauna vegna tiltekins tímabils. Slík krafa fellur undir ákvæði fyrningalaga nr. 14/1905 um gjaldfallna kröfu sem fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. tl. 3. gr. laganna. Fyrningarfrestur telst almennt vera frá þeim degi sem krafa verður gjaldkræf samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrningalaga. Krafa telst almennt gjaldkræf á eindaga. Hafi ekki verið samið um eindaga telst krafa hafa orðið gjaldkræf þegar kröfuhafi átti þess fyrst kost að setja fram kröfuna og miðast upphaf fyrningafrestsins þá við það tímamark. Í máli þessu liggur fyrir að krafa kæranda er gjaldkræf frá 1. desember 2005, sbr. niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 82/2011.

 

Eins og áður greinir fyrnast gjaldfallnar kröfur á fjórum árum, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningalaga nr. 14/1905. Kærandi gerði fyrst athugasemdir við að hún væri ekki að móttaka greiðslu mæðralauna í janúar 2011. Frá þeim tíma er kærufrestur rofinn. Tryggingastofnun ríkisins hefur þegar greitt kæranda mæðralaun frá 1. janúar 2007 í samræmi við ákvæði fyrningarlaga nr. 14/1905. 

 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða kæranda mæðralaun frá 1. janúar 2007, sbr. 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 þar sem kveðið er á um fjögurra ára fyrningarfrest.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða A, mæðralaun frá X, er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum